Eyjafjallajökull. Ferðaskíði

43.000 kr.58.000 kr.

Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar
29. mars

Þetta ævintýri fer ofarlega á montlista alls fjallafólks, enda getum við fullyrt að um er að ræða eina allra fallegustu jökladagleið á Íslandi!

Lagt er af stað í rauðabítið úr Reykjavík því þetta er löng dagleið og það þarf að nýta alla þá birtu sem gefst. Bílar eru skildir eftir við Skógafoss og hópnum skutlað með jepparútu að vesturrönd jökulsins, upp af Hamragarðaheiði, þar sem ferðalagið hefst.

Gengið er á skíðunum sem leið liggur austur yfir jökulinn, yfir öskjuna og niður á Fimmvörðuháls eins langt og hægt er að skíða, en búast má við að ganga þurfi með skíðin á bakinu síðasta spölinn niður í bíla.

Landslagið er gríðarfjölbreytt. Í fyrstu er löng en jöfn hækkun upp á öskjubrún, með hin fallegu Sker á vinstri hönd og óviðjafnanlegt útsýni yfir til Vestmannaeyja. Svo tekur við glíma við hájökulinn þar sem stundum þarf að skipta skíðum út fyrir jöklabrodda. Þegar komið er yfir öskjuna blasir Þórsmörk, Tindfjallajökull og reyndar allt Fjallabakið við skíðafólki ásamt kærkominni langri og mikilli brekku niður í átt að Mýrdalsjökli og svo áfram niður Fimmvörðuhálsinn meðfram gljúfrum og fossum Skógárinnar.

Það er alltaf áskorun að fara upp á Eyjafjallajökul og þetta ferðalag er krefjandi, ekki síst vegna þess að um er að ræða 35-40 km langa dagleið. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og fjölbreyttar ferðaskíðaferðir Úthreyfingarinnar til að æfa sig á skíðunum. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska.

Athugið að ef veðurspá er óhagstæð fyrir þennan laugardag, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag.

Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst. Nauðsynlegt er að eiga ferðaskíði, stafi með stórri kringlu og skinn undir skíðin, jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi ásamt góðum bakpoka sem hægt er að hengja skíðin utan á.

Ferðin kostar 43.000 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en annars 58.000 kr. Hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu.

Innifalið: Skutl með jepparútu á upphafsstað, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald.

Jöklafarar
Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.

Title

Go to Top