21.-22. október
EYJAFJÖLLIN ÞVERS OG KRUSS
Upplyftandi og nærandi tveggja daga útivistarhelgi þar sem fallegir og fáfarnir staðir utan alfaraleiða eru skoðaðir. Eðaldekur í gistingu, mat og drykk. Plús besti félagsskapurinn. Er hægt að biðja um meira?
DAGSKRÁ
Lagt af stað úr Reykjavík í rauðabítið laugardaginn 21. október og ekið í samfloti undir Eyjafjöll. Þar munum við byrja á því að ganga upp á sjálf Eyjafjöllin og hlaupa/ganga svo eftir endilöngum brúnum fjallanna allt að Seljalandsfossi. Þetta er sjaldséð og afar fallegt sjónarhorn á Eyjafjöll og fáir sem þarna fara um, aðrir en bændur í smölun. Þeir sem fara hraðast fá það hlutverk að ná í bílana sem voru skildir eftir á upphafsstað. Um 12 km og ca. 300 m hækkun.
Þegar allir eru komnir af fjalli verður farið í þrjár til fjórar stuttar en skríkjandi skemmtilegar giljagöngur áður en hópurinn pakkar sér aftur inn í bíla og ekur stuttan spöl á gististaðinn þar sem fordrykkur og gúmmulaði, heitur pottur og gufa bíður ferðalanga. Um leið og allir eru sjænaðir og fínir verður borinn fram dýrindis kvöldmatur og svo tekur gleðin völd
Daginn eftir þegar allir eru búnir að gæða sér á ríflegum morgunmat og pakka sér saman verður haldið í landkönnunarferð innst inn í Fljótshlíðina þar sem deginum verður varið í að skoða alls konar fjallaskepnur svo sem Einhyrning, Hest, Meri og Hrútkoll!
Við byrjum á því að ganga hægt og rólega upp á hið sérstaka móbergsfjall Einhyrning sem lítur frekar óárennilega út en er tiltölulega auð- og fljótgengið. Þegar komið er aftur niður, verður rölt niður eftir alveg dásamlega fallegu og stórbrotnu gili sem liggur undir Tindfjöllunum og fáir þekkja. Um 10 km og ca. 300 m hækkun.

VERÐ og SKRÁNING
Ferðin kostar 54 þúsund krónur og innifalið í verðinu er gisting í eina nótt í tveggja manna herbergi, fordrykkur, dýrindis kvöldmáltíð, ríflegur morgunmatur, leiðsögn og utanumhald.
Þið skráið ykkur einfaldlega með því að smella á viðeigandi greiðslulink hér að neðan.
Greiða fyrir einn, smella hér: Alls 54 þúsund
Greiða fyrir tvo, smella hér: Alls 108 þúsund
Nánari upplýsingar verða sendar skráðum þátttakendum þegar nær dregur, m.a. pökkunarlisti, listi yfir ferðafélagana, röðun í herbergi, samflot í bíla etc.