Úti brautarskíði. Námskeið

28.000 kr.

Stutt upphafsnámskeið á brautarskíðum
19. – 29. janúar

Allir geta gengið á skíðum og allir ættu að læra þessa frábæru íþrótt sem reynir á allan líkamann og eykur úthald, þol og styrk.

Við hjá Útihreyfingunni höldum því fram að hvort sem fólk stefni á frama og verðlaunapalla í skíðagöngukeppnum eða þverun jökla á ferðaskíðum með púlkur í eftirdragi, þá þurfi allir að byrja á því að læra undirstöðutæknina í skíðagöngu í braut. Grunntæknina verður að læra í spori áður en sá lærdómur er yfirfærður yfir á ferðaskíðin, þannig að fólk geti byrjað að láta skíðin vinna fyrir sig og svífi áfram í staðinn fyrir að þramma!

Þetta námskeið er því bæði hugsað fyrir byrjendur á brautarskíðum sem og þá sem hafa hingað til aðeins gengið á ferðaskíðum en vilja bæta tæknina. Þetta er líka frábært upphafsnámskeið fyrir skíðavertíðina, þ.e. fyrir þá sem þegar kunna eitthvað á brautarskíðum, en þurfa að rifja upp grunntæknina og taktana!

Námskeiðið hefst á rafrænum fræðslufundi þar sem fjallað er um hvað þarf að hafa í huga þegar kemur að búnaði, hver er munurinn á mismunandi skíðategundum, skíðaskóm og stöfum og hvernig á að klæða sig þegar gengið er á skíðum í spori.

Á fyrstu æfingunni er svo komið að því að læra á búnaðinn, hvernig á að spenna á sig skíðin, hvernig best er að detta (því allir detta!) og taka fyrstu skíðagöngusveifluna 🙂 Æfingarnar eru svo skipulagðar dag eftir dag en einmitt með því að láta ekki of langan tíma líða á milli æfinga í upphafi, nær fólk mestum árangri og framförum.

Lögð er megináhersla á að allir þátttakendur læri taktinn og nái tökum á vanaganginum, þ.e. klassíska sporinu í skíðagöngunni með alls konar tækniæfingum og leikjum. Að auki fá þátttakendur grunnkennslu í öðrum skíðagöngusporum svo sem ýtingum, ýtingum með frásparki, síldarbeinagangi upp brekkur og æfingu í því að renna niður brekkur.

Hver kennslustund tekur um 2 klukkustundir og kennsla fer fram á skíðagöngusvæðinu í Bláfjöllum. Aðgangur að svæðinu er ekki innifalinn í verði.

Dagskrá námskeiðsins

  • Mán. 19. jan. Kl. 20. Fræðslufundur
  • Mán. 26. jan. Kl. 18
  • Þri. 27. jan. Kl. 18
  • Mið. 28. jan. Kl. 18
  • Fim. 29. jan. Kl. 18

Athugið að veður og snjóalög setja mjög oft strik í reikninginn þegar kemur að lagningu skíðaspora og því er afar líklegt að það þurfi að hliðra kennslunni eða að minnsta kosti einhverjum kennsludögum til um einhverja daga. Á upphafsfundinum verður nánar farið yfir snjóalög og mögulegar breytingar á dagsetningum námskeiðsins.

Þátttakendur þurfa að eiga eða leigja brautargönguskíði, gönguskíðaskó og stafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Everest.

Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall, þrautreynt skíðagöngufólk með réttindi.

Námskeiðið kostar 28 þúsund kr. Skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti í aðdraganda námskeiðsins.

Umsagnir

  • Ég hef áður farið á helgarnámskeið en fagmennskan hér er framúrskarandi í samanburði.
  • Gleði og þolinmæði kennaranna er áberandi.
  • Gott að geta klárað þetta á stuttum tíma í stað þess að draga þetta yfir nokkrar vikur.
  • Námskeiðið er vel upp byggt og frábært að blanda leikjum saman við tækniæfingar.
  • Skilvirkar æfingar, ég náði miklum framförum á fáum skiptum.
  • Frábært námskeið og rosa gaman.
  • Allt skemmtilegt og gaman að brjóta kennsluna upp með leikjum.