Skilmálar

Ferðaskrifstofan Vertu úti / Útihreyfingin hefur leyfi til að skipuleggja, bjóða og selja ferðir og námskeið samkvæmt útgefnu ferðaskrifstofuleyfi nr. 2018-029 frá Ferðamálastofu.

Skilmálar þessir eiga bæði við um meðlimi í Útihreyfingunni sem og aðra þátttakendur í ferðum á vegum Vertu úti / Útihreyfingarinnar, bæði innanlands sem utan.

Eigin ábyrgð

Með skráningu í Útihreyfinguna taka meðlimir meðvitaða og upplýsta ákvörðun um að taka þátt í viðburðum á vegum hreyfingarinnar á eigin ábyrgð, hvort sem það eru æfingar, námskeið eða ferðir.

Í því felst meðal annars að þátttakendur gera sér grein fyrir og taka sjálfir ábyrgð á þeirri áhættu sem óhjákvæmilega fylgir allri útivist og æfingum, ásamt því að bera ábyrgð á eigin heilsu og líkamlegu formi. Þátttakendur þurfa þannig að velja sér ferðir og æfingar í samræmi við heilsufar og getu.

Þátttakendum ber að upplýsa þjálfara og leiðsögumenn Útihreyfingarinnar um hvers kyns heilsubresti, bráðaofnæmi eða sjúkdóma, þannig að hægt sé að bregðast við með skjótum, upplýstum og viðeigandi hætti, ef eitthvað kemur upp á.

Trúnaður

Fullur trúnaður ríkir um allar heilsufarslegar og persónuupplýsingar sem þátttakendur láta Útihreyfingunni í té.

Útihreyfingin mun ekki afhenda þriðja aðila viðkvæmar persónuupplýsingar sem lúta að meðlimum eða þátttakendum í ferðum, hvort sem um ræðir heilsufars- eða viðskiptagögn.

Tryggingar

Útihreyfingin tekur hvorki ábyrgð á mögulegum slysum meðlima sinna né heilsubresti og tryggir hvorki þátttakendur sjálfa á æfingum eða í ferðum, né farangur þeirra, tól og tæki, svo sem hjól, skíði, o.s.frv.

Útihreyfingin hvetur alla meðlimi og þátttakendur í ferðum á hennar vegum til að skoða vel sínar tryggingar og kaupa sér ferða-, slysa-, sjúkra- og forfallatryggingar eftir því sem við á.

Breytingar á dagskrá

Allar æfingar, ferðir og námskeið Útihreyfingarinnar eru háðar veðri og aðstæðum á áfangastað ásamt öðrum utanaðkomandi og óviðráðanlegum aðstæðum, svo sem sóttvarnarfyrirmælum. Þjálfarar og leiðsögumenn geta af þessum sökum þurft að aðlaga, fella niður eða breyta fyrirkomulagi æfinga og/eða ferðatilhögun með litlum eða engum fyrirvara.

Að auki áskilur Útihreyfingin sér rétt til að hætta við eða fresta ferð eða námskeiði ef þátttaka er ekki nægileg. Í slíkum tilvikum er þátttökugjald endurgreitt að fullu.

Samskipti

Útihreyfingin vinnur eftir siðareglum sem meðal annars taka á samskiptum manna á milli. Útgangspunkturinn er gleði, jafnrétti og virðing í leik og starfi, hvort sem það er á æfingum, í ferðum, á vefsíðu eða á samfélagsmiðlum hreyfingarinnar. Við skráningu í hreyfinguna og/eða í ferðir undirgangast þátttakendur sömu siða- og samskiptareglur.

Meðlimir Útihreyfingarinnar og þátttakendur í ferðum á vegum hreyfingarinnar skuldbinda sig til að fylgja fyrirmælum og leiðbeiningum þjálfara og leiðsögumanna í hvívetna og kynna sér allar almennar upplýsingar um undirbúning og öryggismál sem sendar eru út fyrir ferð eða farið er yfir á undirbúningsfundum.

Myndbirtingar

Útihreyfingin áskilur sér rétt til að nota ljósmyndir og myndbönd sem teknar eru á æfingum og í ferðum hreyfingarinnar. Ef meðlimir eða þátttakendur í ferðum vilja ekki að myndefni af sér verði birt, skal beiðni um slíkt send með tölvupósti á utihreyfingin@utihreyfingin.is.

Afbókanir og endurgreiðslur

Þátttökugjald er greitt um leið og fólk skráir sig í Útihreyfinguna, til 4ra, 8 eða 12 mánaða í senn. Ársskráningin endurnýjast sjálfkrafa ef henni er ekki sagt upp með a.m.k. mánaðarlöngum fyrirvara.

Að sama skapi skal greiða þátttökugjald í markmiðstengdum námskeiðum hreyfingarinnar um leið og skráning fer fram. Eftir að námskeiðið/verkefnið er hafið, verður þátttökugjald ekki endurgreitt.

Ferðir á vegum Vertu úti / Útihreyfingarinnar skiptast í dagsferðir innanlands og lengri ferðir, bæði innanlands sem utan. Allar ferðir sem kosta undir 150 þúsund kr. skulu staðgreiddar við bókun. Þegar dýrari ferðir eru bókaðar, skal greiða staðfestingargjald sem að jafnaði nemur 20-25% af heildarverði ferðarinnar. Ferðin skal greidd að fullu sextíu (60) dögum fyrir brottför.

Staðfestingargjald er endurgreitt ef afbókun berst innan við sjö (7) dögum frá bókun, að öðru leyti er staðfestingargjaldið alltaf óafturkræft. Hins vegar er heimilt að nafnabreyta ferðabókun án kostnaðar, að því gefnu að Útihreyfingin geti breytt nöfnum í sínum eigin pöntunum, sér að kostnaðarlausu.

Að öðru leyti gilda eftirfarandi endurgreiðslureglur:

Dagsferð er endurgreidd að fullu ef afbókun berst að minnsta kosti 7 daga fyrir ferð.

Lengri ferðir, bæði innalands og utan, eru endurgreiddar að fullu (að frádregnu staðfestingargjaldi) ef afbókun berst að minnsta kosti þrjátíu (30) dögum fyrir ferð. Helmingur fargjalds (að frádregnu staðfestingargjaldi) er endurgreiddur ef afbókun berst 14-30 dögum fyrir brottför en ekkert er endurgreitt, ef afbókað er þegar minna en fjórtán (14) dagar eru í brottför.

Lágmarksþátttaka í allar ferðir Útihreyfingarinnar miðar við tíu (10) manns. Útihreyfingin staðfestir ekki brottför í ferðir nema lágmarksþátttöku sé náð.

Alltaf geta komið upp ófyrirsjáanlegar aðstæður, svo sem alvarleg veikindi eða slys. Við ítrekum að þátttakendur þurfa því alltaf að skoða vel sínar tryggingar og kaupa sér ferða-, slysa-, sjúkra- og forfallatryggingar eftir því sem við á.

Verðbreytingar

Uppgefið verð ferðar miðar við aðstæður á þeim tíma þegar pöntun var staðfest, þar með talið skráð gengi erlendra gjaldmiðla í íslenskum krónum.

Ef breytingar verða á gengi gjaldmiðla, flutningskostnaði, eldsneytiskostnaði, sköttum eða gjöldum, kann verðið að taka breytingum til hækkunar eða lækkunar. Ferð sem er að fullu greidd tekur þó ekki slíkum verðbreytingum ef minna en þrjátíu (30) dagar eru í ferð.

Útihreyfingin áskilur sér rétt til að leiðrétta villur varðandi verð sem kunna að leynast í auglýsingum eða á vefsíðu.

Neytendavernd

Ferðir á vegum ferðaskrifstofunnar Vertu úti / Útihreyfingarinnar eru pakkaferðir í skilningi laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018.

Þátttakendur njóta því allra réttinda sem gilda um pakkaferðir. Vertu úti / Útihreyfingin ber fulla ábyrgð á réttri framkvæmd pakkaferðarinnar í heild og hefur að auki komið á vernd, lögum samkvæmt, til að endurgreiða greiðslur sem inntar hafa verið af hendi og, ef flutningur er innifalinn í pakkaferðinni, tryggja heimflutning ferðamanna, komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar.

Þátttakendur eru hvattir til að kynna sér upplýsingar um réttindi sín samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.