Yfir Snæfellsnes. Ferðaskíði

20.000 kr.24.900 kr.

Dagsganga um gamla þjóðleið
22. febrúar

Útihreyfingin hefur síðustu ár verið að þræða gamlar þjóðleiðir á Snæfellsnesi, nýja leið á hverju ári þar sem gengið er á ferðaskíðum á einum degi yfir Nesið frá norðri til suðurs. Að þessu sinni koma alls fjórar gamlar þjóðleiðir til greina en hver þeirra verður fyrir valinu fer eftir aðstæðum og snjóalögum. Sú stysta er um 15 km en sú lengsta 23 km.

Allar leiðirnar liggja yfir innanvert Snæfellsnes, austan við Vatnaleiðina. Leiðirnar þræða dali og lág skörð svo að hvorki er um óyfirstíganlega hækkun né lækkun að ræða. Þátttakendur þurfa þó að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum en þetta er einmitt tilvalin ferð til að taka ferðaskíðamennskuna upp á nýtt stig, æfa sig í tækninni og njóta þess að skoða nýja staði og nýtt landslag í leiðinni. Við bendum fólki líka á að nota námskeiðið Úti ferðaskíði til að koma sér í ferðaform.

Lagt er af stað snemma á laugardagsmorgun til að nýta daginn sem best og byrjað verður á því að skilja bíla eftir við lokastað göngunnar áður en haldið er á upphafsstaðinn og ferðin hefst fyrir alvöru. Gera má ráð fyrir að gengið verði allan daginn á meðan sauðljóst er og stefnt er að því að hópurinn ljúki síðan ferð með því að borða saman, annað hvort á Vegamótum eða í Borgarnesi. Það verður því ekki komið aftur til Reykjavíkur fyrr en um kvöldið. Ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag.

Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs.

Ferðin kostar 20.000 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en annars 24.900 kr. Innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald.

Title

Go to Top