Drangajökull. Ferðaskíði
105.000 kr.
Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar
12.-14. apríl
Þriggja daga skíðaferð yfir Drangajökul, í hinn draumfagra Reykjarfjörð á Ströndum þar sem ómótstæðileg heit sundlaug bíður ferðalanga.
Skíðað er á ferðaskíðum yfir jökulinn með svefnpoka og vistir í bakpoka og gist í Reykjarfirði í tvær nætur.
Ferðin hefst snemma að morgni laugardags 12. apríl í Kaldalóni við Ísafjarðardjúp. Þar er stigið á skíðin, byrðar axlaðar og haldið sem leið liggur upp á Drangajökul. Gengið er yfir jökulinn og niður í Reykjarfjörð, alls um 25 km leið.
Enginn vegur liggur í Reykjarfjörð sem fór í eyði árið 1964 og því er aðeins fært þangað gangandi, skíðandi eða á bát. Afkomendur síðustu ábúendanna hafa viðhaldið gömlu húsunum og hópurinn gistir einmitt í svokölluðu Gamlahúsi.
Á sunnudaginn mun hópurinn halda kyrru fyrir í Reykjarfirði, skoða nágrennið og liggja í bleyti í hinni víðfrægu bláu sundlaug sem er ótrúlegur unaðsreitur inni í þessu landslagi. Laugin er engin smásmíð eða 8×20 metrar og var reist af mikilli framsýni árið 1938.
Eldsnemma mánudaginn 14. apríl, í upphafi Dymbilviku, er svo gengið á skíðunum aftur til baka yfir Drangajökul og í bílana sem bíða í Kaldalóni.
Ef veðurspá er sérlega óhagstæð þessa þrjá daga, verður skoðað að hnika ferðinni til um 1-2 daga.
Dagleiðirnar eru langar og þátttakendur þurfa að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum og reynslu af ferðalögum á skíðum. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og fjölbreyttar ferðaskíðaferðir Úthreyfingarinnar til að æfa sig á skíðunum. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska.
Athugið að Útihreyfingin er búin að taka frá svefnpokapláss fyrir hópinn nóttina fyrir brottför, skammt frá Kaldalóni. Þeir sem það vilja, geta keypt sér gistingu þar og þá sofið lengur að morgni brottfarardagsins!
Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst. Nauðsynlegt er að eiga ferðaskíði, stafi með stórri kringlu og skinn undir skíðin, jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi ásamt góðum bakpoka sem hægt er að hengja skíðin utan á.
Fararstjórar og leiðsögumenn eru Róbert Marshall og Helga María Heiðarsdóttir, bæði þrautreynd og með AIMG réttindi frá Félagi fjallaleiðsögumanna og gilt WFR skírteini í skyndihjálp á fjöllum.
Ferðin kostar 105.000 kr. og innifalið er gisting í tvær nætur í Reykjarfirði, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu.
Nokkrar umsagnir um Drangajökulsferðina
- Skemmtilegir fararstjórar, veðurglöggir og flínkir að lesa í aðstæður.
- Frábær leið og áfangastaður.
- Léttleikinn stendur upp úr en líka leiðarvalið, náttúran, kvöldvakan…
- Stórkostleg upplifun að skíða yfir jökulinn frá Kaldalóni og dvelja án rafmagns og símasambands í Reykjarfirði.
- Frábær leiðsögn og félagsskapur.
- Náttúrufegurðin er engu lík.
- Húslesturinn var punkturinn yfir i-ið.
Jöklafarar
Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.