Útihreyfingin
PUFFIN RUN FERÐ
5.-7. maí
Puffin Run í Vestmannaeyjum er eitt af skemmtilegustu hlaupum landsins og að sjálfsögðu mun Útihreyfingin fjölmenna á svæðið 🙂
Hlaupið sjálft er haldið laugardaginn 6. maí en fyrst við erum hvort sem er á leiðinni til Eyja, þá langar okkur að gera smá ferðalag í kringum hlaupið. Við höfum því bókað skátaskálann í Eyjum alfarið undir Útihreyfinguna, vini þeirra og vandamenn, bæði föstudags- og laugardagskvöld.
Skátaskálinn heitir Hraunprýði en þar sem hann er staðsettur í svokölluðu Skátastykki á suðurhluta Heimaeyjar gengur skálinn alltaf undir því nafni, þ.e. Skátastykkið. Þetta er afskaplega hlýlegur skáli, mjög svipaður og hefðbundnir fjallaskálar með tveimur klósettum og vel útbúnu eldhúsi. Sjá myndir hér að neðan. Skálinn tekur allt að 20 manns í svefnpokaplássi, bæði í kojum og á dýnum. Fólk kemur með lak og svefnpoka eða sæng og kodda með sér.
Ferðin kostar 26 þúsund kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en 34 þúsund fyrir aðra. Innifalið í verði er sameiginlegur keppnismorgunmatur á laugardaginn og morgunmatur sem stuðlar að góðri endurheimt á sunnudag. En auk þess verður stór og glæsilegur hátíðarkvöldverður á laugardaginn. Og við erum ekkert að tala um eitthvað slor. Okkar eigin stjörnukokkur, hún Sirrý, töfrar fram góðgæti með stæl, eins og henni er einni lagið, líka fyrir ónæmispésa og veganista 😉
Að auki munum við taka létta endurheimtar- og liðleikafjallgöngu á sunnudaginn áður en haldið er heim á leið. Valið stendur á milli Heimakletts, Helgafells, Eldfells, Sæfells eða Dalfjalls, allt eftir veðri og stemningu.
Athugið að takmarkað pláss er í boði og ferðin verður því aðeins auglýst innan Útihreyfingarinnar til að byrja með. Hins vegar er meðlimum frjálst að bóka vini og vandamenn með sér inn í ferðina en þeir borga þá hærra verð.
Innifalið: Gisting í tvær nætur, morgunmatur x 2, hátíðarkvöldverður, fjallganga á sunnudag.
Ekki innifalið: Akstur og sigling með Herjólfi, skráning í Puffin Run.
Athugið að þetta er fast verð, þ.e. hvort sem fólk ætlar að borða eða ekki, gista báðar nætur eða bara aðra.
DAGSKRÁ
Föstudagur
- Fólk tínist til Vestmanneyja með Herjólfi
- Allir koma sér fyrir í skála
Laugardagur
- Sameiginlegur morgunmatur áður en haldið er á upphafsstað hlaupsins
- Puffin Run tekið í nefið
- Sund og sjæn
- Sameiginlegur kvöldmatur í Skátastykkinu
- Glaumur og gleði
Sunnudagur
- Sameiginlegur morgunmatur
- Tiltekt og pökkun
- Sameiginlegur liðleikagöngutúr
- Fólk tínist heim á leið með Herjólfi