Þverun Fjallabaks Ferðaskíði

23.-26. mars
UPPSELT
Sendu okkur póst til
að skrá þig á biðlista!

Það eina sem er betra en að ganga á ferðaskíðum daglangt fjarri mannabyggðum í snjóhvítu og kyrrlátu vetrarlandslagi er að ganga á skíðum nokkra daga í röð! Þá skiptir bókstaflega ekkert máli nema grunnþarfirnar, glíman við náttúruöflin og líðandi stund. Þessi ferð tikkar í öll þessi box og er sannkölluð draumaferð fyrir alla unnendur vetrarferðalaga á skíðum.

Skíðað er um Fjallabak frá norðri til suðurs á alls fjórum dögum. Ferðin hefst með því að bílar þátttakenda eru skildir eftir á Hvolsvelli eldsnemma fyrsta daginn og hópnum er skutlað í jepparútu upp í Hrauneyjar þar sem farið er á skíðin.

Fyrsta daginn er gengið í Landmannahelli, næsta dag í Dalakofann, þriðja daginn í Hungurfit og þann fjórða áleiðis á Hvolsvöll, til móts við jepparútu sem sækir hópinn.

Ferðin er trússuð svo að aðeins þarf að skíða með dagpoka á bakinu með nesti dagsins og hlýjum utanyfirfötum. Matur og allur annar farangur er fluttur á milli skálanna og bíður þar þegar hópurinn klárar dagsverkið. Dagleiðirnar fjórar eru allar svipað langar eða um 20 km. Landslagið er þó auðvitað afar ólíkt dag frá degi en að öllu jöfnu hallar þó jafnt og þétt undan fæti.

Skíðað er á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) og þátttakendur þurfa að vera í góðu formi og kunna að beita ferðaskíðunum í mismunandi landslagi. Til að læra og æfa sig þá bendum við m.a. á námskeiðin Ferðast á gönguskíðum og Gönguskíðafestival í Kerlingarfjöllum, ásamt dagsferð yfir Snæfellsnesfjallgarðinn, helgarferð yfir Vestfjarðakjálkann eða Fimmvörðuháls.

Ferðin kostar 113.000 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en annars 148.000 kr. Athugið að hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu.

Innifalið í verðinu er flutningur frá Hvolsvelli að upphafsstað ferðar og frá lokastað aftur á Hvolsvöll. trúss á farangri alla fjóra dagana, gisting í svefnpokaplássi þrjár nætur, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald.

Athugið að á þessum tíma árs er auðvitað allra veðra von og því gott að hafa örlítinn sveigjanleika í skipulaginu. Ef veðurspáin þessa auglýstu daga er ekki að vinna með okkur þá gæti farið svo að ferðinni yrði seinkað um 1-3 daga, þ.e. eitthvað inn í Dymbilvikuna.

Skráðir þátttakendur verða boðaðir á undirbúningsfund og fá ítarlegan upplýsingapóst þegar nær dregur ferð.

Title

Go to Top