Þjórsárver í Kerlingarfjöll Snarganga*

79.000 kr.108.000 kr.

Þrír göngudagar. Tald og skálar
14.-17. júlí

Í þessum leiðangri eru helstu perlur Þjórsárvera skoðaðar ásamt afar sjaldséðri og litskrúðugri bakhlið Kerlingarfjalla. Gist er eina nótt í tjaldi í Þjórsárverum, aðra nótt í Setrinu, vel búnum skála Ferðaklúbbsins 4×4 sunnan Hofsjökuls og síðustu nóttina í skála í Kerlingarfjöllum. Fyrstu tvo dagana er allur búnaður skorinn við nögl til að ferðast sem léttast og gengið í utanvegahlaupaskóm sem henta frábærlega í votlendi Þjórsárveranna. Í Setrinu er hægt að losa sig við allan umframbúnað yfir í trússbíl og ferðast léttur og lipur síðasta daginn.

Ferðin hefst eldsnemma á föstudagsmorgni með rútuferðalagi frá Reykjavík upp á Sprengisand þar sem lagt er í Þjórsána við Hreysiskvísl. Mikilvægt er að vera snemma á ferðinni til að ná að vaða ána á meðan hún er enn í næturdvala og vatnshæðin eins lág og kostur er þann daginn. Fyrsta dagleiðin er stutt, eða 12 km, og einkennist af miklu vatnasulli því upptakakvíslar Þjórsár flækjast hér um allar koppagrundir.

Tjöldum er slegið upp undir Arnarfelli hinu mikla þar sem öræfakyrrðin á lögheimili. Það er auðvelt að fyllast lotningu og andakt í þessari gróðurvin sem kúrir í skugga ískaldra skriðjökla, hátt yfir sjávarmáli. Eftir að búið er að koma upp tjöldum, hvíla sig aðeins og næra, er haldið í skoðunarleiðangur um svæðið, inn að Múlajökli og upp á Arnarfell, þaðan sem útsýnið er hreint út sagt stórfenglegt.

Gott er að taka næsta dag snemma því hann er langur, eða tæplega 30 km, allt á jafnsléttu þó. Byrjað er á að ganga undir og eftir hinum formfögru Arnarfellsmúlum, gömlum jökulgörðum sem Múlajökull hefur skilið eftir sig. Hjartarfell, sem ber nafn með rentu, kemur smám saman í ljós umvafið Múla- og Nauthagajökli og þaðan er stuttur spölur að Miklukvísl, sem stundum getur verið farartálmi. Hinum megin árinnar er Nautalda og þar verður löng og góð pása áður hópurinn skundar síðustu 10-12 km heim í hús í Setrinu. Hér bíður trússbíllinn með verðskuldaðan dekurmat og föt til skiptana.

Síðasti hlaupadagurinn er skemmtilegur landkönnunarleiðangur um innstu og afskekktustu afkima Kerlingarfjalla, 14-19 km. Nú er hópurinn laus við allan viðlegubúnað af bakinu og skokkar léttur inn í Kisubotna, þaðan sem haldið er á brattann, framhjá tindunum Höllu og Eyvindi og yfir ónefnda fjallstoppa og bullandi hveragil og gljúfur, bakdyramegin upp á Fannborgina. Þaðan er stuttur spölur niður Fannborgarjökulinn og að nýendurreistri og glæsilegri hálendismiðstöð Kerlingarfjalla þar sem gist er í skála síðustu nóttina. Hér er gott að fagna ferðalokum í heitri náttúrulaug og heitum pottum og njóta ljúffengra kræsinga á nýopnuðum veitingastað svæðisins.

Fjórði og síðasta dagurinn er ferðadagur, því rúta sækir hópinn skömmu eftir morgunmat og flytur aftur til Reykjavíkur. Áætluð koma er rétt um hádegisbil.

Innifalið: Utanumhald, leiðsögn og undirbúningsfundur, rútuferð upp á Sprengisand í upphafi ferðar og úr Kerlingarfjöllum síðasta daginn, skálagisting í Setrinu og í Kerlingarfjöllum. Trúss á farangri.

 

*Snarganga er íslenskun á fyrirbærinu fast hiking og liggur á milli hefðbundinnar fjallgöngu og fjallahlaups. Í snargönguferðum er verið að njóta náttúrunnar og hraði er ekki takmark í sjálfu sér. Hins vegar er leitast við að ferðast með eins léttann bakpoka og kostur er, með það að markmiði að komast lengri dagleiðir.

 

 

14.564 kr. í 6 mánuði

Title

Go to Top