Snæfellsjökull Fjallaskíði

20.500 kr.29.000 kr.

Dagsferð á fjallaskíðum
Í samstarfi við ÚTILÍF
1. apríl

Snæfellsjökull er alltaf skemmtilegur að eiga við og hentar sérstaklega vel fyrir fjallaskíðun. Að auki má líta á það sem ákveðin forréttindi að sækja jökulinn heim því hann er því miður að hverfa.

Á góðum útsýnisdögum er bókstaflega himneskt að standa uppi á jöklinum og sjá Snæfellsnesfjallgarðinn breiða úr sér eins og landakort fyrir fótum manns.

Ef snjóalög leyfa þá leggjum við á jökulinn frá Dagverðará sem er skemmtilegasta skíðaleiðin upp og niður. Ef það er ekki í boði, þá förum við hefðbundna leið af Jökulhálsinum.

Ferðin hentar byrjendum í fjallaskíðaíþróttinni og er t.d. gott framhaldsskref fyrir þá sem hafa jafnvel farið í sína fyrstu fjallaskíðaferð á Bláfell. Grunngeta á svigskíðum er þó alltaf nauðsynleg.

Mæting er kl. 7:30 við verslun Útilífs í Skeifunni 11 þar sem boðið verður upp á morgunhressingu. Eftir að allir eru búnir að fá kaffiskammtinn sinn er sameinast í jeppa og haldið af stað vestur á Snæfellsnes. Gera má ráð fyrir heimkomu um og uppúr kl. 18.

Ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er möguleiki að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti þegar nær dregur.

Innifalið:
Leiðsögn, utanumhald og undirbúningsfundur sem haldinn verður kl. 20 í verslun Útilífs í Skeifunni 11, miðvikudagskvöldið 29. mars. Þar verður farið nánar yfir ferðalagið, við hverju má búast og hvaða búnaður er nauðsynlegur. Þetta kvöld bjóðast þátttakendum sérstakir afslættir og sérkjör í Útilíf.

Title

Go to Top