Skeiðarárjökull þveraður Ganga

65.000 kr.91.000 kr.

Með allt á bakinu
29. júní – 2. júlí

Allir unnendur útivistar ættu að minnsta kosti einu sinni á ævinni að ganga þessa ævintýraleið milli Núpstaðarskógar og Skaftafells í Öræfasveit. Farið er um ægifagurt og einstakt landsvæði sem eingöngu er fært fuglinum fljúgandi og göngufúsum ferðalöngum með öræfaglampa í augum. Landslagið er gríðarlega fjölbreytt, allt frá ilmandi birkiskógum og tvílitum hyljum í djúpum gljúfrum að ísaköldum skriðjökli. Þetta er ferð sem breytir fólki og er erfitt að tala um eftir á, án þess að verða væminn.

Þátttakendur koma á eigin vegum austur í Öræfi og ferðin hefst snemma fimmtudags þegar ekið er í samfloti undir brúnaþungum Lómagnúpi inn í Núpsstaðaskóg þar sem gangan hefst. Heimsókn í Núpstaðaskóg ein og sér er meiriháttar upplifun og fyrstu tvær dagleiðirnar færa okkur hægt og bítandi í norðurátt upp að Grænalóni sem lúrir milli Grænafjalls og Skeiðarárjökuls. Þangað er gengið eftir tilkomumiklum gljúfrum, giljum og skorningum Núpsárinnar á hlykkjóttri leið til sjávar. Á vegi okkar verða grösugir dalir og krefjandi hækkanir á bröttum köflum leiðarinnar. Erfiðið verður svo sannarlega þess virði þegar við berjum Grænalón augum í fyrsta sinn.

Fjöllin, jökullinn, lónið – þetta er með merkilegustu svæðum landsins. Það er einstök upplifun að sitja í tjaldstað og horfa í austur yfir Skeiðarárjökulinn í átt til Skaftafellsfjalla sem rísa upp úr krosssprungnum skriðjöklinum líkt og konungsríki ævintýrabókmenntanna. Tilhugsunin um að leggja til atlögu við jökulinn daginn eftir er ofarlega í huga þegar lagst er til hvílu við Grænalón.

Á þriðja degi ferðarinnar er glímt í heilan dag við Skeiðarárjökul og nú margborgar sig að fara sér að engu óðslega. Hér þarf að þræða sig áfram af öryggi í kringum svelgi, sprungur, drýli og kraftmikla jökullæki sem hverfa með holum drunum ofan í hyldýpi jökulsins. Verkefni dagsins er að ná upp á Færneseggjar, á Svalirnar svokallaðar, sem er líklega eitt fegursta villitjaldsvæði landsins. Afrek dagsins verður okkur enn ljósara þegar setið er í rauðagylltu sólarlagi í andaktugri forundran í tjaldbúðunum á Svölunum og horft til baka yfir jökulinn. Þetta er lífið og lífið er núna.

Daginn eftir bíður okkur fjallaveisla í æðsta veldi. Við hækkum okkur upp í Skaftafellsfjöllin og ef veður og forsjón er með okkur í liði göngum við á Blátind sem er einn skemmtilegasti útsýnistindur Öræfa. Hér má sjá alla helstu dýrgripi suðaustanverðs Vatnajökuls í einni örlítilli svipan. Svo liggur leið okkar niður Norðurdal í Bæjarstaðaskóg sem er villtasti, fallegasti og langskemmtilegasti birkiskógur landsins. Á fallegum degi er ekki úr vegi að skola af sér ferðarykið í ísköldum hyljum milli klettaborgar í skóginum áður en rölt er yfir sandinn inn í Skaftafell þar sem líklegt má telja að okkur verði fagnað sem hetjum að ferðalokum 🙂

Nú skiljum við ljóð Jóhannesar.
Maðurinn í landinu
landið í manninum
– það er friður guðs. 

Haldinn er undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar þar sem farið er nánar yfir ferðatilhögun, pökkun og búnað.

Title

Go to Top