Skaftafellsfjöll Fjallaskíði

55.500 kr.78.000 kr.

Þriggja daga hjóla- og fjallaskíðaferð
26.-29. maí

Miðfellstindur er einn glæsilegasti tindur Öræfasveitar. Leiðin að honum er líka með fallegri fjallaleiðum landsins og nágranni hans Ragnarstindur er ekki síður mikilfenglegur. Leiðin að þessum tindum er löng og því er þessi ferð skipulögð líka sem svolítið bakpokaferðalag. Og tjaldútilega. Og hjólaferð.

Til þess að stytta þessa löngu dagleið er nefnilega gert ráð fyrir því að fjallaskíðum og tilheyrandi fjallabúnaði og útilegugræjum sé komið fyrir á fjallahjóli. Svo er hjólað inn Morsárdalinn síðdegis fyrsta daginn og slegið upp tjöldum á Morsáraurum. Þeir sem vilja geta auðvitað gengið þennan hluta leiðarinnar en gangan inn dalinn tekur í kringum þrjá tíma.

Í birtingu næsta dag er lagt á tindana, fyrst á Miðfellstind, um Þumal og svo upp á Ragnarstind í kjölfarið. Stefnt er að því að skíða sjaldfarna leið niður af Ragnarstindi, alla leið niður á Morsáraura. Þetta er löng dagleið og því er aftur gist í tjaldbúðunum þegar niður er komið. Að morgni þriðja dags eru tjaldbúðir teknar saman og hjólað til baka í Skaftafell.

Þetta er krefjandi ferð sem kallar á gott líkamlegt form, ágæta skíðafærni, fullt af ævintýragirni og smekk fyrir tilraunastarfsemi. Ekki er verra að hafa undirbúið sig með öðrum fjallaskíðaferðum eins og t.d á Bláfell og Snæfellsjökul eða Fjallaskíðaferð á Tröllaskaga.

Ferðin tekur þrjá daga en er sett niður á fjóra daga til þess að hægt sé að velja góðan veðurglugga til uppgöngu. Skráðir þátttakendur nánari upplýsingar í tölvupósti þegar nær dregur.

Innifalið: Undirbúningsfundur og búnaðarskoðun, leiðsögn og utanumhald.

Title

Go to Top