Mýrdalshlaupið. Keppnisferð
27.000 kr.
Hlaupagleði og grill
30. maí – 1. júní
Sameiginleg helgarferð í hið stórskemmtilega og fjölbreytta utanvegahlaup, Mýrdalshlaupið, sem haldið er í Vík í Mýrdal, laugardaginn 31. maí.
Gist verður í félagsheimilinu Eyrarlandi í Reynishverfi, steinsnar frá Reynisfjöru, Dyrhólaey og öðrum náttúruperlum. Bæði er hægt að gista í svefpokum á dýnum í félagsheimilinu eða tjalda fyrir utan, allt eftir því hvað þátttakendur kjósa.
Eyrarland verður miðstöð hópsins þessa helgi en þar er fullbúið eldhús og góð aðstaða til að borða saman, syngja og fagna hlaupinu.
Þátttakendur sameinast í bíla og aka austur seinnipartinn á föstudag og koma sér fyrir í félagsheimilinu. Eftir sameiginlegan morgunverð á laugardag er haldið að rásmarki hlaupsins í Vík þar sem ræst er í hlaupið kl. 11. Boðið er upp á þrjár miskrefjandi vegalengdir, 21 km, 10 km og 3 km.
Eftir hlaupið er sundlaugin í Vík heimsótt áður en haldið er aftur að Eyrarlandi þar sem slegið verður upp veglegri grillveislu til að fagna áfanganum.
Sunnudagurinn hefst á staðgóðum morgunmat og svo verður farið í stutt endurheimtarhlaup m.a. um Reynisfjöru og Dyrhólaós, áður en haldið er heim á leið.
Innifalið í verðinu er utanumhald, svefnpokagisting og aðgangur að allri aðstöðu í eða við Eyrarland frá föstudegi til sunnudags, morgunmatur bæði laugardag og sunnudag, grillveisla á laugardagskvöld og leiðsagt endurheimtarhlaup á sunnudaginn.
Athugið að verðið er það sama, hvort sem þátttakendur nýta sér gistinguna bæði föstudags- og laugardagsnótt eða bara aðra nóttina.
Þátttökugjaldið í Mýrdalshlaupinu er ekki innifalið og við hvetjum alla til að tryggja sér miða strax með því að smella hér.