Langisjór Kajak og fjallganga

42.000 kr.58.000 kr.

Ein nótt í skála og ein í tjaldi
22.-24. júlí

Þeirri himnesku dásemdardýrð sem blasir við þegar Fögrufjöllin við Langasjó speglast í grænbláum vatnsfletinum verður ekki lýst með orðum. Þessi náttúrufegurð er af öðrum heimi og verður best fönguð með því að róa á kajak undir móbergsfjallgarðinum sem liggur eftir Langasjó endilöngum.

Ferðin hefst með því að þátttakendur aka í samfloti á eigin bílum úr Reykjavík að morgni laugardags áleiðis upp að Langasjó. Skömmu áður en komið er að vatninu er stoppað og gengið á tignarlegt fjall sem heitir því fallega nafni Grettir. Þetta er stutt leið en þaðan er ægifagurt útsýni meðal annars yfir Uxatinda á Skælingjaleið.

Ef veður er bjart og fallegt, verður ekki látið þar við sitja heldur líka haldið upp á Sveinstind við Langasjó sem aðeins tekur um klukkustund að ganga á og er eitthvert besta útsýnisfjall landsins. Ef veður þennan daginn hentar ekki til útsýnisgönguferða, þá færum við göngurnar til innan ferðadaganna. Þessa fyrstu nótt gistir hópurinn í fjallaskála Útivistar sem kúrir undir sunnanverðum Sveinstindi.

Daginn eftir er pakkað saman og gengið frá skála áður en ekið er niður að Langasjó þar sem kajakarnir eru lestaðir og gerðir klárir. Að því búnu er lagt í hann og róið undir Fögrufjöllunum endilöngum alla leið að Fagrafirði og eyjunni Ást, um 13 km leið. Þar fer hópurinn í land og setur upp tjaldbúðir til einnar náttar í svörtum sandinum til að spilla ekki þeim viðkvæma gróðri sem þarna vex. Um kvöldið skoðum við nágrennið fótgangandi og þeir allra hugrökkustu stinga sér til sunds í fimbulköldum Langasjó.

Á mánudegi er tjöldum og vistum pakkað aftur ofan í kajakana og róið til baka sömu leið. Ef ekki viðraði til fjallgöngu fyrsta daginn, þá verður úr því bætt á heimleiðinni.

Athugið að kajaknámskeið og kajakreynsla er ófrávíkjanleg forkrafa inn í ferðina. Við bendum á þetta kvöldnámskeið sem er bæði ætlað byrjendum og lengra komnum. Svo getum við ekki stillt okkur um að benda tvær aðrar kajakferðir: Daladraumur og Kajakferð á milli skála í norska skerjagarðinum.

Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðarinnar. Athugið að það er óráðlegt að leggja í kajakróður á Langasjó nema ef veður er tiltölulega stillt og milt. Ef svo verður ekki, þá virkjast plan B sem er eyjaróður á Breiðafirði. Þátttakendur sem vilja bara fara á Langasjó en ekki eitthvert annað fá þá að sjálfsögðu endurgreitt.

Innifalið: Leiðsögn og utanumhald, ein gistinótt í skála, sérhæfðir kajakleiðsögumenn og fylgd og trúss á gúmmíbát. Athugið að leiga á kajak er ekki innifalin í verði en ef fólk þarf á því að halda þá höfum við milligöngu um kajakleigu og flutning á honum upp að Langasjó og til baka. Ef fólk kemur með eigin báta, þá þarf hins vegar að flytja þá á eigin vegum.

Title

Go to Top