Kerlingarfjöll Fjallaskíðafestival

149.000 kr.175.000 kr.

Skíðað niður alla helstu tinda Kerlingarfjalla
19.-21. apríl

Þriggja daga fjallaskíðaveisla þar sem þátttakendur skíða og skinna um allt Kerlingarfjallasvæðið og safna eins mörgum tindum og kostur er.

Kerlingarfjöll eru stórkostlegur áfangastaður fyrir fjallaskíðafólk. Þessi fjallabálkur geymir alls konar skemmtilega tinda, háa og lága, með stuttum og löngum, aflíðandi og krefjandi brekkum. Að auki er það einstætt á heimsvísu að hægt sé að skíða í gegnum gufubólstra beint niður að kraumandi hverasvæði. Upplifuninni verður vart lýst með orðum.

Í þessari ferð verður leitast við að skíða utan alfaraleiða á sem flesta tinda og ferðast með fjallaskíðin á fótunum á milli fjallstoppa, þ.e. koma niður á allt öðrum stað en upp var farið. Hvaða tindar verða fyrir valinu fer að einhverju leiti eftir snjóalögum og færi og að auki verður hópnum skipt upp eftir getu, til að allir fái verkefni við sitt hæfi.

Meðal markmiða má þó nefna einstakt ferðalag sem leiðir hópinn baksviðs á milli þriggja ólíkra gufuspúandi hverasvæða með skemmtilegum brekkum, hliðrunum og náttúrulegri hálfpípu svo eitthvað sé nefnt. Einnig verður sjónum beint að fjöllunum sem liggja sunnan og vestan í Kerlingarfjöllum, þ.e. Ögmundi, Hetti og Tindi.

Athugið að þessi ferð hentar ekki algerum byrjendum á svigskíðum og er heldur ekki námskeið í notkun fjallskíða. Hins vegar er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að þátttakendur séu á ólíku getustigi í sinni fjallaskíðamennsku.

Þátttakendur mæta fyrir hádegi á föstudag á eigin bílum í Skjól, skammt hjá Geysi í Haukadal, en þaðan er hópurinn fluttur í stórdekkjaðri fjallarútu upp í Kerlingarfjöll. Þar er gist í tvær nætur á nýju, vel búnu fjallahóteli með aðgangi að heitum laugum, veitingastað og setustofu með arineldi þar sem gaman er að taka apré ski og hefðbundnar Kerlingarfjallakvöldvökur.
Ferðin kostar 149.000 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en 175.000 kr. fyrir aðra.

Innifalið í verði er akstur í og úr Kerlingarfjöllum, gisting í tvær nætur á hótelherbergi með sérbaðherbergi, tveir morgunverðir og tveir kvöldverðir, dagsnesti í tvo daga og apré ski drykkur, aðgangur að heitum laugum, skutl frá hótelinu upp á skíðasvæðið, leiðsögn, undirbúningsfundur, búnaðarskoðun og utanumhald.

Athugið að verðið er það sama þó að þátttakendur kjósi að aka á eigin breyttum jeppum upp í Kerlingarfjöll. Við mælum þó alltaf með fjallarútunni eða að minnsta kosti að fólk aki í samfloti upp í Fjöllin, því færðin getur verið óútreiknanleg og breyst á örskotsstundu.

Verðið miðar við að tveir gisti saman í tveggja manna deluxe herbergi en hægt er að panta einstaklingsherbergi eða uppfæra í svítu eða einkaskála gegn auka gjaldi. Sendið fyrirspurn á utihreyfingin@utihreyfingin.is.

Skráðir þátttakendur fá boð á undirbúningsfund og nánari upplýsingapóst þegar nær dregur ferð.

Title

Go to Top