Hornstrandir II. Allt á bakinu

93.000 kr.108.000 kr.

ÖRFÁ SÆTI LAUS
Fjórir göngudagar á hjara veraldar

1.-4. júlí

Á Hornströndum rennur hrikaleg náttúrufegurð saman við dulmagnað andrúmsloft horfinna tíma á svo ólýsanlegan hátt að ferðalangar fá ekki nóg og þurfa að koma aftur og aftur. Þetta er náttúruperla sem sannarlega liggur við endimörk hins byggilega heims og hér háðu ábúendur fyrri tíma hreint ótrúlega lífsbaráttu. Á Hornströndum fær fólk enda á tilfinninguna að náttúruöflin sýni annað hvort sínar allra bestu eða allra verstu hliðar, en lítið þar á milli!

Í þessari ferð verður gist í tjöldum í þrjár nætur og gengið í fjóra daga um svæði sem margir líta á sem hjarta Hornstranda, þ.e. svæðið umhverfis Hornbjarg og Hælavíkurbjarg. Þetta er svokölluð hægferð, þ.e. aðalmarkmiðið er að njóta þess að vera á staðnum, ganga á eigin hraða, hlusta á fuglana og gaggið í friðaðri tófunni. Í tvo daga verður gengið með létta dagpoka en tvo daga með allan viðlegubúnað á bakinu.

Skipulag ferðarinnar tekur að einhverju leyti mið af veðri og vindum en lagt er upp með eftirfarandi dagskrá og búast má við 12-20 km dagleiðum.

Snemma fyrsta daginn er siglt frá Ísafirði í Hornvík og sama dag verður gengið á Hornbjarg eða yfir í Látravík eða Rekavík bak Horn, allt eftir veðri. Tjaldað til tveggja nátta í Höfn. Á öðrum degi verður gengið á Hornbjarg ef það var ekki gert fyrsta daginn, annars yfir í Látravík. Gist er aðra nótt í tjaldi í Höfn. Á þriðja degi er pakkað saman og gengið með allt á bakinu yfir Atlaskarð eða um Hvannadal yfir í Hlöðuvík þar sem verður tjaldað og grillað saman. Á fjórða degi er svo gengið með allt á bakinu yfir Kjaransvíkurskarð og yfir á Hesteyri þar sem bátur nær í hópinn síðla dags. Komið verður til baka til Ísafjarðar um kvöldmatarleytið.

Ferðin kostar 93 þúsund fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar og 108 þúsund fyrir aðra. Athugið að hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Innifalið er siglingin, leiðsögn og utanumhald plús grillmáltíð síðasta kvöldið.

Skráðir þátttakendur verða boðaðir á rafrænan upplýsingafund í aðdraganda ferðar og fá að auki ítarlegan tölvupóst með búnaðarlista og góðum undirbúningsráðum.

Title

Go to Top