Fjallaskíðanámskeið

42.500 kr.55.900 kr.

Fjallaskíðanámskeið
23. og 25. janúar, 8. og 24. febrúar

Einstaklingsmiðað námskeið fyrir þá sem vilja læra og bæta færni sína á fjallaskíðum. Námskeiðið er fjögur skipti, haldið í nágrenni Reykjavíkur, og hentar bæði byrjendum og lengra komnum.

Námskeiðið samanstendur af einu fræðslukvöldi, einu kvöldi í troðnum brautum í Bláfjöllum, einu kvöldi í ótroðinni braut í Bláfjöllum og einum fjallaskíðadegi á suðvesturhorninu.

Á fræðslukvöldinu sem haldið er í verslun Útilífs í Skeifunni er m.a. farið yfir klæðnað, búnað og öryggismál, snjóflóðamat og leiðarval. Þátttakendum gefst kostur á að koma með skíðabúnaðinn sinn til skoðunar og yfirferðar á þessu fyrsta kvöldi.

Annað kvöldið er í Bláfjöllum þar sem farið yfir hefðbundna svigskíðatækni í troðinni braut. Gerðar eru mismunandi skíðaæfingar og allir fá kennslu og leiðbeiningar við sitt hæfi. Það þýðir að sumir taka sínar æfingar í barnabrekkunni á meðan aðrir henda sér beint í bröttustu brekkurnar.

Næsti tími er einnig haldinn í Bláfjöllum en nú utan við sjálft skíðasvæðið. Farið er yfir muninn á því að skíða í troðinni braut og utan brauta og skíðatæknin aðlöguð til samræmis.

Síðasta námskeiðsdaginn er svo farið í hefðbundna 4-5 klst. fjallaskíðaferð í nágrenni Reykjavíkur, allt eftir aðstæðum og snjóalögum. Í þessari ferð kemur öll fræðslan saman, spáð er í snjóflóðahættu og leiðarval, skíðatæknin er æfð í þeim aðstæðum sem náttúran býður upp á þann daginn og tekin er æfing í snjóflóðaleit.

Þátttakendur þurfa að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Skíði með fjallaskíðabindingum, skinn og brodda undir skíðin, lengjanlega skíðastafi, skíðahjálm, snjóflóðaýli, stöng og skóflu.

Athugið að veður og snjóalög geta sett strik í reikninginn og orðið til þess að breyta þurfi einhverjum dagsetningum, hliðra til og aðlaga námskeiðið til samræmis. En skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti þegar nær dregur.

Námskeiði kostar 42.500 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en 55.900 kr. fyrir aðra. Hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu.

Innifalið í verði er öll kennsla, lyftukort í Bláfjöllum, leiðsögn og utanumhald.

Title

Go to Top