Daladraumur Hjól og kajak

55.000 kr.77.000 kr.

Tvær nætur í tjaldi
23.-25. júní

Í þessari mögnuðu Jónsmessuferð blöndum við þrenns konar hreyfingu saman. Við hjólum á fjallahjólum, róum á kajökum og göngum upp á fjall. Að auki er líklegt að við þurfum eitthvað að busla í þeim vötnum sem á vegi okkar verða og að sjálfsögðu þarf líka að velta sér upp úr kyngimagnaðri Jónsmessudögginni!

Svona ferðir þar sem fjölbreyttri hreyfingu er blandað saman, eru í algjöru uppáhaldi hjá okkur í Útihreyfingunni. Við erum líka bara nokkuð góð í að skipuleggja slíkar fjölbragðaferðir, þó við segjum sjálf frá 🙂

Þessi fjölbragaðaferð hefst snemma á fimmtudagsmorgni í Dölunum þar sem þátttakendur mæta á eigin bíl með hjólin sín. Farangri er komið fyrir í trússbíl og lagt af stað hjólandi yfir Sópandaskarð, um sögufrægan Langavatnsdal og í Hraundal þar sem við hittum trússbílinn aftur og setjum upp tjöld. Hjólaleið dagsins er um 30 km, mest megnis á gömlum og mislúnum jeppaslóða.

Daginn eftir er tjöldum pakkað inn í trússbílinn og haldið áfram hjólandi upp Hítardal og að Hítarvatni, um 30-35 km leið. Þar bíða kajakar og gúmmíbátur og eftir að búið er að koma viðlegubúnaðinum fyrir í bátunum er róið yfir vatnið, um 6 km. Við botn vatnsins er land numið og tjöldum komið fyrir. Þarna liggur enginn vegur og fáfarið er um svæðið, aðeins stöku kind á stangli ásamt líflegu fuglalífi.

Að morgni sunnudags er stefnan tekin upp á Geirhnúk, sem er hæsta fjallið fyrir botni vatnsins og rís í tæplega 900 m hæð. Þaðan er frábært útsýni um nágrennið og allt austanvert Snæfellsnesið. Gangan er um 9 km fram og til baka og að henni lokinni eru tjaldbúðirnar teknar saman, kajakarnir lestaðir og róið til baka. Bílstjórum er nú skutlað til að ná í bílana og svo haldið heim á leið.

Athugið að kajaknámskeið og kajakreynsla er forkrafa inn í ferðina. Við bendum á þetta kvöldnámskeið sem er bæði ætlað byrjendum og lengra komnum. Og fyrst við erum byrjuð að tala um kajak, þá eru hér tvær aðrar kajakferðir sem þið ættuð að kíkja á: Kajakferð um Langasjó og Kajakferð á milli skála í norska skerjagarðinum.

Skráðir þátttakendur í Daladraumnum fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðarinnar.

Innifalið: Leiðsögn og utanumhald, leiga og flutningur á kajak, ár, toppi, svuntu og björgunarvesti. Sérhæfðir kajakleiðsögumenn og trúss á farangri, bæði á bíl og á gúmmíbát.

Title

Go to Top