Vatnajökull Ferðaskíði
88.500 kr. – 123.900 kr.
Fjögurra daga leiðangur
18.-21. maí
Krefjandi leiðangur á ferðaskíðum þar sem ferðast er um stórkostlega undraveröld Lónsöræfa og yfir austanverðan Vatnajökul, þar sem alls sex af hundrað hæstu tindum Íslands verða toppaðir. Farið er um svæði sem fáir hafa skoðað, hvað þá að vetrarlagi. Gist er í eina nótt í skála og eina til tvær nætur í tjaldi á jökli. Bera þarf allan farangur á bakinu.
Lagt er af stað í ofurjeppum frá Höfn í Hornafirði, inn að og yfir Kjarrdalsheiði og áfram að Illakambi í Lóni. Þar eru byrðar axlaðar og gengið í Múlaskála þar sem gist er fyrstu nóttina.
Daginn eftir þarf að byrja á því að bera skíðin á bakinu, þvera ár og ganga upp í snjólínu í Norðurlambatungum. Þaðan er svo gengið á skíðunum inn á austanverðan Vatnajökul þar sem byrjað er á því að fara upp á alla fjóra Lambatungnatindana, hvern af öðrum. Að svo búnu er skíðað niður Lambatungnajökulinn og tjaldað undir Goðahrygg.
Næsta dag verður gengið upp á Goðaborg, Goðahaus og jafnvel Goðabungu áður en haldið er áfram á skíðunum niður Lambatungnajökulinn, yfir í Fossdal og að endingu niður í Hoffellsdal. Þar ná ofurjeppar í hópinn og farangur hans og flytja aftur til Hafnar í Hornafirði.
Heildarvegalengd leiðangursins er 45-50 km. Gert er ráð fyrir einni aukanótt í tjaldi á jöklinum, ef á þarf að halda sökum veðurs og/eða ef ferðalagið sækist seint.
Þessi leiðangur krefst mikils undirbúnings og aga af þátttakendum. Gist er í tjöldum á jökli, gengið á háa tinda og ferðast um sprungusvæði. Þátttakendur þurfa að vera í góðu formi og hafa annað hvort nokkra reynslu af vetrarferðalögum á skíðum og/eða taka námskeið og fara í undirbúningsferðir í vetur. Góð æfingarferð fyrir þessa ferð er t.d. ferðin yfir Drangajökul.
Skráðir þátttakendur fá ítarlegri upplýsingar í tölvupósti þegar nær dregur. Haldinn verður rafrænn undirbúnings- og skipulagsfundur ásamt einum búnaðarskoðunarfundi fyrir ferð.
Innifalið: Flutningur og trúss til og frá Höfn, gisting í Múlaskála, undirbúningsfundur og búnaðarskoðun, leiðsögn og utanumhald.