• Daladraumur Hjól og kajak

    55.000 kr.77.000 kr.
    Tvær nætur í tjaldi 23.-25. júní Í þessari mögnuðu Jónsmessuferð blöndum við þrenns konar hreyfingu saman. Við hjólum á fjallahjólum, róum á kajökum og göngum upp á fjall. Að auki er líklegt að við þurfum eitthvað að busla í þeim vötnum sem á vegi okkar verða og að sjálfsögðu þarf líka að velta sér upp úr kyngimagnaðri Jónsmessudögginni! Svona ferðir þar sem fjölbreyttri hreyfingu er blandað saman, eru í algjöru uppáhaldi hjá okkur í Útihreyfingunni. Við erum líka bara nokkuð góð í að skipuleggja slíkar fjölbragðaferðir, þó við segjum sjálf frá 🙂 Í þessari mögnuðu Jónsmessuferð blöndum við þrenns konar hreyfingu saman. Við hjólum á fjallahjólum, róum á kajökum og göngum upp á fjall. Að auki er líklegt að við þurfum eitthvað að busla í þeim vötnum sem á vegi okkar verða og að sjálfsögðu þarf líka að velta sér upp úr kyngimagnaðri Jónsmessudögginni! Þessi fjölbragaðaferð hefst snemma á fimmtudagsmorgni í Dölunum þar sem þátttakendur mæta á eigin bíl með hjólin sín. Farangri er komið fyrir í trússbíl og lagt af stað hjólandi yfir Sópandaskarð, um sögufrægan Langavatnsdal og í Hraundal þar sem við hittum trússbílinn aftur og setjum upp tjöld. Hjólaleið dagsins er um 30 km, mest megnis á gömlum og mislúnum jeppaslóða. Daginn eftir er tjöldum pakkað inn í trússbílinn og haldið áfram hjólandi upp Hítardal og að Hítarvatni, um 30-35 km leið. Þar bíða kajakar og gúmmíbátur og eftir að búið er að koma viðlegubúnaðinum fyrir í bátunum er róið yfir vatnið, um 6 km. Við botn vatnsins er land numið og tjöldum komið fyrir. Þarna liggur enginn vegur og fáfarið er um svæðið, aðeins stöku kind á stangli ásamt líflegu fuglalífi. Að morgni sunnudags er stefnan tekin upp á Geirhnúk, sem er hæsta fjallið fyrir botni vatnsins og rís í tæplega 900 m hæð. Þaðan er frábært útsýni um nágrennið og allt austanvert Snæfellsnesið. Gangan er um 9 km fram og til baka og að henni lokinni eru tjaldbúðirnar teknar saman, kajakarnir lestaðir og róið til baka. Bílstjórum er nú skutlað til að ná í bílana og svo haldið heim á leið. Athugið að kajaknámskeið og kajakreynsla er forkrafa inn í ferðina. Við bendum á þetta kvöldnámskeið sem er bæði ætlað byrjendum og lengra komnum. Og fyrst við erum byrjuð að tala um ferðalög á kajak, þá eru hér tvær aðrar kajakferðir sem við mælum með: Kajakferð um Langasjó og Kajakferð á milli skála í Noregi. Skráðir þátttakendur í Daladraumnum fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðarinnar. Innifalið: Leiðsögn og utanumhald, leiga á kajak, ár, toppi, svuntu og björgunarvesti. Sérhæfðir kajakleiðsögumenn og trúss á farangri, bæði á bíl og á gúmmíbát.
  • Kajaknámskeið

    18.000 kr.25.000 kr.
    Náðu tökum á tækninni 21. júní Fátt er eins nærandi, draumkennt og dásamlegt og að líða hljóðlaust áfram á kajak í fullkominni sátt og tengingu við náttúruna. Á þessu þriggja klukkustunda námskeiði verður farið yfir þann grunn sem þarf til að geta bjargað sér á kajak og byrjað að lifa drauminn! Farið er yfir búnaðinn og áratökin útskýrð áður en allir koma sér fyrir, hver í sínum kajak og ýtt er úr vör. Í framhaldi eru áratökin æfð ásamt mismunandi aðferðum við að stýra kajaknum, halda réttri stefnu, beygja og snúa við. Farið er yfir undirstöðuatriðin í félagabjörgun og að lokum eru allir látnir velta kajaknum sínum til að æfa sig í því að komast klakklaust úr honum og upp í hann aftur. Mæting er við höfnina á Stokkseyri kl. 17:30 þar sem byrjað verður á því að taka til kajakana og klæða sig í viðeigandi fatnað áður en kennsla hefst. Þátttakendur fá allan nauðsynlegan búnað á námskeiðinu og þurfa aðeins að mæta í hlýjum fötum og með aukaföt til skiptanna. Ítarlegur upplýsingapóstur er sendur á þátttakendur í aðdraganda námskeiðs. Athugið að þetta námskeið eða sambærilegt námskeið og/eða reynsla er forkrafa inn í allar kajakferðir Útihreyfingarinnar svo sem Daladrauminn, Kajakferð á Langasjó og Kajakferð í norska skerjagarðinn. Innifalið: Kajak, ár, toppur, svunta og björgunarvesti ásamt kennslu faglærðra kajakkennara.
  • Klöngur og klifur Námskeið

    22.500 kr.32.000 kr.
    Þriggja kvölda getuskipt námskeið í klifri og fjallabrölti 24. maí, 7. og 12. júní Námskeið fyrir þau sem vilja læra líkamsbeitingu og handtökin til að auka öryggi og færni í fjallabrölti, klettagöngu (via ferrata), klöngri og klettaklifri. Námskeiðið tekur þrjú kvöld. Fyrsta kvöldið lærum við á mismunandi búnað og förum yfir öryggismálin áður en við prufum línuklifur á vegg innanhúss. Næstu tvö kvöld verður farið í línuklifur utandyra, á tveimur mismunandi klifursvæðum í nágrenni Reykjavíkur. Námskeiðið er tilvalið fyrir þau sem vilja yfirstíga ótta við krefjandi hindranir á fjöllum enda einstaklingsmiðað, svo að allir þátttakendur fá kennslu og verkefni við hæfi. Hentar því bæði þeim sem hafa aldrei prufað að klifra, sem og þeim sem vilja bæta færnina og læra betri líkamsbeitingu sem gerir þau að betri klifrurum. Meðal kennara er Íslandsmeistarinn í klifri innanhúss en allir hafa kennararnir víðtæka reynslu af klifri og fjallabrölti, bæði hér heima og erlendis. Námskeiðið hefst kl. 19 öll þrjú kvöldin, þ.e. miðvikudagskvöldin 24. maí og 7. júní og mánudagskvöldið 12. júní. Verð: 22.500 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar / 32.000 kr. fyrir aðra Innifalið: Allur nauðsynlegur búnaður, aðgangur að Klifurhúsinu, kennsla og utanumhald.
  • Langisjór Kajak og fjallganga

    42.000 kr.58.000 kr.
    Ein nótt í skála og ein í tjaldi 22.-24. júlí Þeirri himnesku dásemdardýrð sem blasir við þegar Fögrufjöllin við Langasjó speglast í grænbláum vatnsfletinum verður ekki lýst með orðum. Þessi náttúrufegurð er af öðrum heimi og verður best fönguð með því að róa á kajak undir móbergsfjallgarðinum sem liggur eftir Langasjó endilöngum. Ferðin hefst með því að þátttakendur aka í samfloti á eigin bílum úr Reykjavík að morgni laugardags áleiðis upp að Langasjó. Skömmu áður en komið er að vatninu er stoppað og gengið á tignarlegt fjall sem heitir því fallega nafni Grettir. Þetta er stutt leið en þaðan er ægifagurt útsýni meðal annars yfir Uxatinda á Skælingjaleið. Ef veður er bjart og fallegt, verður ekki látið þar við sitja heldur líka haldið upp á Sveinstind við Langasjó sem aðeins tekur um klukkustund að ganga á og er eitthvert besta útsýnisfjall landsins. Ef veður þennan daginn hentar ekki til útsýnisgönguferða, þá færum við göngurnar til innan ferðadaganna. Þessa fyrstu nótt gistir hópurinn í fjallaskála Útivistar sem kúrir undir sunnanverðum Sveinstindi. Daginn eftir er pakkað saman og gengið frá skála áður en ekið er niður að Langasjó þar sem kajakarnir eru lestaðir og gerðir klárir. Að því búnu er lagt í hann og róið undir Fögrufjöllunum endilöngum alla leið að Fagrafirði og eyjunni Ást, um 13 km leið. Þar fer hópurinn í land og setur upp tjaldbúðir til einnar náttar í svörtum sandinum til að spilla ekki þeim viðkvæma gróðri sem þarna vex. Um kvöldið skoðum við nágrennið fótgangandi og þeir allra hugrökkustu stinga sér til sunds í fimbulköldum Langasjó. Á mánudegi er tjöldum og vistum pakkað aftur ofan í kajakana og róið til baka sömu leið. Ef ekki viðraði til fjallgöngu fyrsta daginn, þá verður úr því bætt á heimleiðinni. Athugið að kajaknámskeið og kajakreynsla er ófrávíkjanleg forkrafa inn í ferðina. Við bendum á þetta kvöldnámskeið sem er bæði ætlað byrjendum og lengra komnum. Svo getum við ekki stillt okkur um að benda tvær aðrar kajakferðir: Daladraumur og Kajakferð á milli skála í norska skerjagarðinum. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðarinnar. Athugið að það er óráðlegt að leggja í kajakróður á Langasjó nema ef veður er tiltölulega stillt og milt. Ef svo verður ekki, þá virkjast plan B sem er eyjaróður á Breiðafirði. Þátttakendur sem vilja bara fara á Langasjó en ekki eitthvert annað fá þá að sjálfsögðu endurgreitt. Innifalið: Leiðsögn og utanumhald, ein gistinótt í skála, sérhæfðir kajakleiðsögumenn og fylgd og trúss á gúmmíbát. Athugið að leiga á kajak er ekki innifalin í verði en ef fólk þarf á því að halda þá höfum við milligöngu um kajakleigu og flutning á honum upp að Langasjó og til baka. Ef fólk kemur með eigin báta, þá þarf hins vegar að flytja þá á eigin vegum.
  • Langjökull Ferðaskíði

    38.000 kr.53.000 kr.
    Jónsmessunótt á jökli Nóttin 23.-24. júní Einstök næturskíðaferð yfir þveran Langjökul á meðan sólin sest fyrir aftan hópinn og rís á sama tíma fyrir framan hann! Það er varla hægt að hugsa sér magnaðri upplifun en að vaka og skíða alla Jónsmessunóttina undir litaskiptum jökulsins sem logar í roðaglóð um sumarsólstöður. Hópurinn ekur á eigin bílum úr Reykjavík seinnipart föstudagsins 23. júní, upp að Skálpanesi á Kili, austan megin við Langjökul. Þar eru bílarnir skildir eftir en jepparúta flytur hópinn að upphafsstað göngunnar, vestan Langjökuls. Rétt við jökulröndina vestan megin, stendur skálinn Jaki. Þar endar vegurinn og tími til kominn að spenna á sig skíðin, axla byrðar og leggja af stað upp í mót. Mesta hækkunin er tekin út í upphafi ferðarinnar, upp fremur þægilega brekku á hæsta punkt leiðarinnar. Þaðan er að mestu aflíðandi leið, alla leið niður jökulinn að austanverðu og að bílum sem bíða við skálann Klaka við Skálpanes. Leiðin er 40-45 km löng og gera má ráð fyrir að hún taki hópinn 9-12 klukkustundir, allt eftir aðstæðum á jöklinum. Gert er ráð fyrir að lagt sé af stað úr Reykjavík skömmu fyrir kvöldmat á föstudag og komið heim um hádegisbil á laugardag eftir óviðjafnanlega Jónsmessunótt. Þátttakendur þurfa að vera í góðu líkamlegu formi og hafa einhverja reynslu af ferðalögum á skíðum. Athugið að dagsetningin gæti hnikast eitthvað til eða frá, ef veðurspáin er betri dagana í kring. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðarinnar en nauðsynlegt er að eiga ferðaskíði, stafi með stórri kringlu og skinn undir skíðin, jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi ásamt þægilegum dagpoka sem hægt er að hengja skíðin utan á, ef svo ber undir. Innifalið: Utanumhald og leiðsögn, skutl með jepparútu á upphafsstað.  
  • Öskjuvegur Hlaup

    98.000 kr.128.000 kr.
    Fimm hlaupadagar. Fjórar nætur í skálum 30. júlí - 3. ágúst Hrá og stórbrotin fimm daga óbyggðaleið á milli skála á hálendinu norðan Vatnajökuls. Leiðin, sem kölluð er Öskjuvegur, liggur á milli Herðubreiðalinda og Svartárkots og er samtals um 100 km löng. Svartir sandar, úfin hraun og kyngimagnaðar eldstöðvar einkenna leiðina og auðvitað fegursta fjall Íslands, Herðubreið. Þetta er krefjandi áskorun, dagleiðirnar eru 15-26 km langar, lítið er um vatn á leiðinni og stundum er hlaupið í gljúpum sandi. Að auki liggur slóðin um afskekkt hálendi þar sem allra veðra er von, líka að sumri til. Þátttakendur koma á eigin bílum að Svartárkoti í Bárðardal í upphafi ferðar en þaðan er haldið með rútu í Herðubreiðalindir. Ef skyggni er gott og drottning allra fjalla í góðu skapi, þá styttum við hlaupaleiðina þennan fyrsta dag og göngum á Herðubreið. Frá Herðubreið er svo stuttur hlaupaspölur yfir söndugt helluhraun í skálann í Bræðrafelli. Á degi tvö er skokkað úr Bræðrafelli suður í Drekagil í Öskju sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna. Á fáum stöðum er öræfakyrrðin dýpri en á þessum slóðum. Drekagil er alltaf gaman að skoða og ekki mun væsa um okkur í vel búnum skálunum. Dagur þrjú er lengsti og erfiðasti en jafnframt fjölbreyttasti hlaupadagurinn. Stefnan er tekin yfir Dyngjufjöll og upp á austurbarm Öskju inn í eina mestu himnafegurð íslenskra fjalla. Askjan öll og hið dularfulla og síkvika Öskjuvatn blasir við okkur á meðan við lækkum okkur niður að Víti og Knebelsvörðunni og veltum fyrir okkur örlögum vísindamannanna sem hér hurfu árið 1907. Aftur þarf að hækka sig upp á norðurbarm Öskju áður en leiðin liggur niður í móti að skálanum í Dyngjufelli. Nú erum við komin vel út fyrir troðnar slóðir. Hér er fáfarið og auðvelt að gleyma stað og stund í eilífðarþögninni sem aðeins er rofin af taktföstum fótatökum einbeittra fjallahlaupara á grófum vikrinum niður Jónsskarð í Dyngjufjalladal. Á fjórða degi er stefnan tekin í Botnaskála. Við hlaupum um sandorpin hraun í víðfeðmri fjallasýn þar sem Trölladyngja, Kollóttadyngja, Bláfjall og auðvitað Herðubreið skreyta sjóndeildarhringinn. Hér ríkir fegurðin ein og ummerki um slóða og mannaferðir mást smám saman út í sandinum meðfram apalhraunbrún Suðurárhraunsins. Fimmti og síðasti dagurinn ber okkur í norðvestur og skyndilega er hér ofgnótt af silfurtæru lindarvatni en dagleiðirnar hingað til hafa verið giska vatnslitlar og einungis hægt að nálgast vatn í skálunum. Auðnir Ódáðahrauns eru brátt að baki og við komum á gróið land. Hlaupið er niður með Suðurá í átt að Stóruflesju og áfram í Svartárkoti þar sem bílarnir bíða og formlegri ferð lýkur. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðar. Innifalið: Leiðsögn og utanumhald, gisting í fjórar nætur í skálum, trúss á farangri á milli skála og rútuferð úr Bárðardal að Herðubreiðalindum í upphafi ferðar.
  • Skeiðarárjökull þveraður Ganga

    65.000 kr.91.000 kr.
    Með allt á bakinu 29. júní - 2. júlí Allir unnendur útivistar ættu að minnsta kosti einu sinni á ævinni að ganga þessa ævintýraleið milli Núpstaðarskógar og Skaftafells í Öræfasveit. Farið er um ægifagurt og einstakt landsvæði sem eingöngu er fært fuglinum fljúgandi og göngufúsum ferðalöngum með öræfaglampa í augum. Landslagið er gríðarlega fjölbreytt, allt frá ilmandi birkiskógum og tvílitum hyljum í djúpum gljúfrum að ísaköldum skriðjökli. Þetta er ferð sem breytir fólki og er erfitt að tala um eftir á, án þess að verða væminn. Þátttakendur koma á eigin vegum austur í Öræfi og ferðin hefst snemma fimmtudags þegar ekið er í samfloti undir brúnaþungum Lómagnúpi inn í Núpsstaðaskóg þar sem gangan hefst. Heimsókn í Núpstaðaskóg ein og sér er meiriháttar upplifun og fyrstu tvær dagleiðirnar færa okkur hægt og bítandi í norðurátt upp að Grænalóni sem lúrir milli Grænafjalls og Skeiðarárjökuls. Þangað er gengið eftir tilkomumiklum gljúfrum, giljum og skorningum Núpsárinnar á hlykkjóttri leið til sjávar. Á vegi okkar verða grösugir dalir og krefjandi hækkanir á bröttum köflum leiðarinnar. Erfiðið verður svo sannarlega þess virði þegar við berjum Grænalón augum í fyrsta sinn. Fjöllin, jökullinn, lónið - þetta er með merkilegustu svæðum landsins. Það er einstök upplifun að sitja í tjaldstað og horfa í austur yfir Skeiðarárjökulinn í átt til Skaftafellsfjalla sem rísa upp úr krosssprungnum skriðjöklinum líkt og konungsríki ævintýrabókmenntanna. Tilhugsunin um að leggja til atlögu við jökulinn daginn eftir er ofarlega í huga þegar lagst er til hvílu við Grænalón. Á þriðja degi ferðarinnar er glímt í heilan dag við Skeiðarárjökul og nú margborgar sig að fara sér að engu óðslega. Hér þarf að þræða sig áfram af öryggi í kringum svelgi, sprungur, drýli og kraftmikla jökullæki sem hverfa með holum drunum ofan í hyldýpi jökulsins. Verkefni dagsins er að ná upp á Færneseggjar, á Svalirnar svokallaðar, sem er líklega eitt fegursta villitjaldsvæði landsins. Afrek dagsins verður okkur enn ljósara þegar setið er í rauðagylltu sólarlagi í andaktugri forundran í tjaldbúðunum á Svölunum og horft til baka yfir jökulinn. Þetta er lífið og lífið er núna. Daginn eftir bíður okkur fjallaveisla í æðsta veldi. Við hækkum okkur upp í Skaftafellsfjöllin og ef veður og forsjón er með okkur í liði göngum við á Blátind sem er einn skemmtilegasti útsýnistindur Öræfa. Hér má sjá alla helstu dýrgripi suðaustanverðs Vatnajökuls í einni örlítilli svipan. Svo liggur leið okkar niður Norðurdal í Bæjarstaðaskóg sem er villtasti, fallegasti og langskemmtilegasti birkiskógur landsins. Á fallegum degi er ekki úr vegi að skola af sér ferðarykið í ísköldum hyljum milli klettaborgar í skóginum áður en rölt er yfir sandinn inn í Skaftafell þar sem líklegt má telja að okkur verði fagnað sem hetjum að ferðalokum :) Nú skiljum við ljóð Jóhannesar. Maðurinn í landinu landið í manninum - það er friður guðs.  Haldinn er undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar þar sem farið er nánar yfir ferðatilhögun, pökkun og búnað.
  • Úti últra

    25.000 kr.89.800 kr.
    Æfinga- og undirbúningshópur fyrir löng fjallahlaup eða svokölluð últra hlaup. Það eru keppnir þar sem hlaupið er lengra en 50 km en undir þessa skilgreiningu falla til dæmis Hengill Ultra, Laugavegshlaupið og Austur Ultra. Á svona markmiðstengdu ferðalagi skiptir höfuðmáli að æfingaferlið sé skemmtilegt og félagsskapurinn góður. Í þessum hópi finnur þú æfingafélagana sem halda þér við efnið, þjást með þér í gegnum súrt og sætt og deila með þér nördalegum áhuga á langhlaupum
  • Þrír göngudagar. Tald og skálar 14.-17. júlí Í þessum leiðangri eru helstu perlur Þjórsárvera skoðaðar ásamt afar sjaldséðri og litskrúðugri bakhlið Kerlingarfjalla. Gist er eina nótt í tjaldi í Þjórsárverum, aðra nótt í Setrinu, vel búnum skála Ferðaklúbbsins 4x4 sunnan Hofsjökuls og síðustu nóttina í skála í Kerlingarfjöllum. Fyrstu tvo dagana er allur búnaður skorinn við nögl til að ferðast sem léttast og gengið í utanvegahlaupaskóm sem henta frábærlega í votlendi Þjórsárveranna. Í Setrinu er hægt að losa sig við allan umframbúnað yfir í trússbíl og ferðast léttur og lipur síðasta daginn. Ferðin hefst eldsnemma á föstudagsmorgni með rútuferðalagi frá Reykjavík upp á Sprengisand þar sem lagt er í Þjórsána við Hreysiskvísl. Mikilvægt er að vera snemma á ferðinni til að ná að vaða ána á meðan hún er enn í næturdvala og vatnshæðin eins lág og kostur er þann daginn. Fyrsta dagleiðin er stutt, eða 12 km, og einkennist af miklu vatnasulli því upptakakvíslar Þjórsár flækjast hér um allar koppagrundir. Tjöldum er slegið upp undir Arnarfelli hinu mikla þar sem öræfakyrrðin á lögheimili. Það er auðvelt að fyllast lotningu og andakt í þessari gróðurvin sem kúrir í skugga ískaldra skriðjökla, hátt yfir sjávarmáli. Eftir að búið er að koma upp tjöldum, hvíla sig aðeins og næra, er haldið í skoðunarleiðangur um svæðið, inn að Múlajökli og upp á Arnarfell, þaðan sem útsýnið er hreint út sagt stórfenglegt. Gott er að taka næsta dag snemma því hann er langur, eða tæplega 30 km, allt á jafnsléttu þó. Byrjað er á að ganga undir og eftir hinum formfögru Arnarfellsmúlum, gömlum jökulgörðum sem Múlajökull hefur skilið eftir sig. Hjartarfell, sem ber nafn með rentu, kemur smám saman í ljós umvafið Múla- og Nauthagajökli og þaðan er stuttur spölur að Miklukvísl, sem stundum getur verið farartálmi. Hinum megin árinnar er Nautalda og þar verður löng og góð pása áður hópurinn skundar síðustu 10-12 km heim í hús í Setrinu. Hér bíður trússbíllinn með verðskuldaðan dekurmat og föt til skiptana. Síðasti hlaupadagurinn er skemmtilegur landkönnunarleiðangur um innstu og afskekktustu afkima Kerlingarfjalla, 14-19 km. Nú er hópurinn laus við allan viðlegubúnað af bakinu og skokkar léttur inn í Kisubotna, þaðan sem haldið er á brattann, framhjá tindunum Höllu og Eyvindi og yfir ónefnda fjallstoppa og bullandi hveragil og gljúfur, bakdyramegin upp á Fannborgina. Þaðan er stuttur spölur niður Fannborgarjökulinn og að nýendurreistri og glæsilegri hálendismiðstöð Kerlingarfjalla þar sem gist er í skála síðustu nóttina. Hér er gott að fagna ferðalokum í heitri náttúrulaug og heitum pottum og njóta ljúffengra kræsinga á nýopnuðum veitingastað svæðisins. Fjórði og síðasta dagurinn er ferðadagur, því rúta sækir hópinn skömmu eftir morgunmat og flytur aftur til Reykjavíkur. Áætluð koma er rétt um hádegisbil. Innifalið: Utanumhald, leiðsögn og undirbúningsfundur, rútuferð upp á Sprengisand í upphafi ferðar og úr Kerlingarfjöllum síðasta daginn, skálagisting í Setrinu og í Kerlingarfjöllum. Trúss á farangri.   *Snarganga er íslenskun á fyrirbærinu fast hiking og liggur á milli hefðbundinnar fjallgöngu og fjallahlaups. Í snargönguferðum er verið að njóta náttúrunnar og hraði er ekki takmark í sjálfu sér. Hins vegar er leitast við að ferðast með eins léttan bakpoka og kostur er, með það að markmiði að komast lengri dagleiðir.    

Title

Go to Top