HLAUPAVEISLA Í ÞÓRSMÖRK
17.-18. júní

Tveggja daga fjölskylduvæn hlaupaferð inn í Þórsmörk. Hlaupið bæði laugardag og sunnudag, nokkrar útfærslur í boði og kílómetrum safnað í skrokkinn fyrir gott hlaupasumar. Og það er ekki bara hlaupið heldur líka grillað og spjallað, sungið og glaðst. Frábær helgi til að kynnast enn betur og þétta hópinn 🙂

DAGSKRÁ

Laugardagur
Lagt er af stað með rútu frá Reykjavík eldsnemma á laugardagsmorgun. Þann daginn er boðið upp á tvær mismunandi langar hlaupaleiðir.

  • Annars vegar Fimmvörðuhálsinn, frá Skógum yfir í Þórsmörk, alls um 23 km. Þetta er krefjandi en gríðarlega falleg leið með tæplega 1300 m hækkun fyrstu 14 km. Jafnan þarf að hlaupa nokkra kílómetra á snjó áður en leiðin liggur niður á við og dýrðir Þórsmerkurinnar blasa við.
  • Hins vegar 8-10 km fallegur útsýnishringur í Þórsmörk með um 4-500 m hækkun.

Í báðum tilvikum lýkur laugardagshlaupinu í Básum, þar sem hópurinn kemur sér fyrir í skála, grillar og gleðst saman.

Sunnudagur
Daginn eftir, á sunnudag, hlaupa allir svokallaðan Tindfjallahring, sem er um 10 km langur og ægifagur. Þetta er endurheimtarhlaup og ekki hratt farið. Hægari hlauparar, vinir og vandamenn, börn og burur hlaupa af stað hálftíma á undan hraðari hópnum. Hópurinn sameinast svo á leiðinni, þegar hraðir ná hinum hægari, líklega við Tröllakirkju og allir klára hringinn saman eða í sitt hvoru lagi, hver með sínu nefi 🙂

Dagskrá lýkur svo um hádegi á sunnudag og gert er ráð fyrir brottför með rútu til Reykjavíkur um kl. 13.

ALLIR VELKOMNIR

Þessi hlaupahelgi er fjölskylduvæn sem þýðir að fólki er velkomið að koma með maka, börn, vini og vandamenn. Aðstandendur geta þá annað hvort komið með í hlaupin, allt eftir getu og vilja eða bara dundað sér í dásemdar Þórsmörk. Samvinna er málið. Við höfum keyrt svona hlaupahelgi í Þórsmörk í áraraðir og hingað til hafa engin börn týnst á meðan foreldrarnir eru á hlaupum… 😉

Við erum búin að panta lítinn skála í Básum, þar sem hópurinn getur verið útaf fyrir sig. Þar eru 20 svefnpokapláss og frábær aðstaða til að elda og stússast. Fyrstir til að skrá sig komast að í skálanum, en ef allt fyllist, þá er alltaf hægt að vera úti í tjaldi.

FORGANGUR OG VERÐ

Meðlimir Útihreyfingarinnar og vinir og vandamenn þeirra hafa forgang í skráningu og inn í skála og við auglýsum þessa ferð ekki út á við nema ef plássin fyllast ekki.

Innifalið í verði er gisting eina nótt í skála, undirbúningsfundur, leiðsögn og allt utanumhald. Þegar nær dregur og fjöldi þátttakanda er klár, þá leitum við tilboða í rútufargjaldið og rukkum það sérstaklega.

Meðlimir í Útihreyfingunni: 22.000 kr.
Ekki meðlimir í Útihreyfingunni: 29.000 kr.
Barn/unglingur 6-18 ára: 11.000 kr.
Barn yngra en 6 ára: Ókeypis

Ef þú ætlar bara að skrá þig (þ.e. einn meðlim í Útihreyfingunni), smelltu þá hér.
Ef þú ætlar að skrá þig og maka og/eða vini og/eða börn að auki, sendu þá póst á utihreyfingin@utihreyfingin.is með viðeigandi upplýsingum. Við reiknum þá upphæðina saman og sendum þér greiðslulink um hæl.